Ferðanefnd Ísland skipulagði dagsferð í Þórsmörk og Goðaland laugardaginn 3. júní. Farið var í rútu og jeppum, alls 46 manns, félagar í Borgum, makar og 1 gestur úr Rkl Grafarvogs ásamt maka. Jeppafólk lagði bílum við FÍ skálann í Langadal og gekk yfir í Húsadal til móts við fólkið í rútunni sem fór yfir Krossá í Húsadal. Eftir hressingu á veitingastaðnum þar var lífleg upphitun áður en gengið var í Langadal með viðkomu við Snorraríki. Enginn fór þó upp í ríkið að þessu sinni, þó rifjaðar hafi verið upp frægðarsögur um það. Í Langadal var hressingarstopp við Skagfjörðsskála FÍ og síðan haldið yfir Krossá yfir í Bása í Goðalandi, aðsetur Útivistar. Margir gengu Básahringinn og loks var sameinast í kvöldmat á veitingastaðnum í Básum. Góður dagur, glatt var á hjalla, sungið og skálað og margar skemmtilegar frásagnir bæði í rútunni á leiðinni og á svæðinu.
Bestu kveðjur, Jónína Þ. Stefánsdóttir Form. Ferðanefndar Ísland