Gengið um Hólavallakirkjugarð

sunnudagur, 4. júní 2023

Umhverfisnefnd undir stjórn Marteins Sigurgeirssonar stóð fyrir gönguferð um Hólavallakirkjugarð 30 maí. Leiðsögumaður okkar var Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. Stefán sagði okkur sögur af fólki sem grafið er í garðinum og tengingum þess við skáldverk Halldórs Kiljan Laxness. Þá benti Stefán okkur á gröf og minningarmark Þorleifs Guðmundssonar Repp og sagði hann hafa verið gáfaðan mann og mikinn fræðimann. Rétt er að geta þess að ættarnafnið Repp er stytting úr Hrepp en Þorleifur var fæddur í Hrunamannahreppi og Danir gátu ekki borið fram orðið Hrepp. Þorleifur starfaði í Kaupmannahöfn og lést þar eftir þunga legu. Hann vildi ekki láta jarða sig í danskri drullu og var lík hans því flutt til Íslands og jarðsett í Hólavallakirkjugarði. Stefán sagði okkur fleiri sögur af merku fólki á meðan gengið var um garðinn og tekið skal undir orð eins félaga okkar í göngunni „Vonandi verður aftur ganga með Stefáni um garðinn“

Við þökkum Stefáni og Marteini fyrir fræðandi og vel heppnaða göngu.