Þriðji orkupakki ESB

fimmtudagur, 22. nóvember 2018

Bjarni Jónsson

Helstu afleiðingar af innleiðingu þriðja orkupakka ESB á Íslandi.


Fundurinn var í  umsjón Alþjóða- og laganefndar, formaður Þóranna Pálsdóttir og kynnti hún ræðumann dagsins sem var Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur. Hann nam verkfræði við Háskóla Íslands og svo raforkufræði við háskólann í Þrándheimi. Hann starfaði við ýmis störf í Noregi sem tengdust raforkumálum en starfaði svo m.a. lengi fyrir Ísal hér á Íslandi.

Erindi Bjarna fjallaði um svokallaðan þriðja orkupakka ESB, sem stendur jafnvel að taka upp hérlendis. Hann greindi frá innihaldinu sem m.a. er ætlað að bæta afhendingaröryggi, samræma leyfi t.d. fyrir millilandatengingum o.fl. Hann sagði að þetta fæli í sér embætti í hverju landi sem væri óháð yfirvöldum og hagsmunaaðilum. Ágreiningur sem gæti komið upp yrði tekinn upp hjá EFTA og svo jafnvel hjá ACER, eftirlitsstofnun ESB. Ef lagður yrði sæstrengur þá giltu sömu reglur um afhendingu og í Evrópu og sennilegt að verð hækkaði hér. Bjarni sagði að ef orkupakkanum yrði hafnað hefði Alþingi seinasta orðið um raforkumálin en annars óháður embættismaður og þá yrðu útflutningshömlur rafmagns óheimilar. Bjarni sagði að með tengingu við Evrópska kerfið þá væri það markaðskerfið sem réði og orkan yrði seld til hæstbjóðenda. Ýmsar spurningar komu í kjölfar erindisins sem Bjarni svaraði greiðlega.