Fundurinn var í umsjón Ferðanefndar útlönd, formaður Haraldur Friðriksson og kynnti hann ræðumann dagsins sem var Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður. Sævar er með BS próf í jarðfræði og hann hefur kennt stjarnvísindi, komið fram í fjölmiðlum o.m.fl. Hann heldur líka úti vefnum stjornufraedi.is.
Erindi Sævars fjallaði um himingeiminn, fegurð hans og töfra. Um 2500 störnur sjást almennt á himinum í góðu skyggni og þær tilheyra Vetrarbrautinni okkar. Á ensku heitir Vetrarbrautin Milky Way og er samkvæmt grískri goðfræði mynduð úr mjólk Heru. Alls eru um 400 milljarðar stjarna á himninum. Sævar sýndi myndir af stjörnuhimninum og sagði frá honum. Flestar stjörnurnar eru miklu stærri en okkar sól og í ljósi stærðar himingeimsins þá erum við einungis: „rykkorn í risastórum alheimi“. Sævar vakti einnig athygli á tveimur bókum sem hann hefur skrifað og fjallar sú nýjasta um svarthol og hentar öllum frá 9 ára aldri. Sævar sagði einnig að eftir því sem hann skoðaði stjörnur meira þá kynni hann betur að meta jörðina og talaði að lokum um umhverfismál og gildi þess að að ganga vel um okkar hnött.