Borgir í heimsókn hjá Póstinum

laugardagur, 26. nóvember 2022

Fimmtudaginn 24. nóvember sl. fóru félagar í Borgum í fyrirtækjaheimsókn til Póstsins á Stórhöfða í Reykjavík. Heimsóknin hófst með kynningu Þórhildar Ólafar Helgadóttur forstjóra og félaga í Borgum þar sem hún fór yfir hlutverk og starfsemi fyrirtækisins. Hún lýsti einnig breytingum á póstþjónustu, hruni í fjölda bréfasendinga, vexti í fjölda pakkasendinga og sjálfvirknivæðingu starfseminnar. Auk þess var kynning á umhverfis- og loftslagsstefnu Póstsins sem felst m.a. í notkun vistvænna ferðamáta og endurnýjanlegra orkugjafa í flutningum. Að lokinni kynningu var gengið um Póststöðina undir leiðsögn starfsmanna Póstsins. 

Félagar í Borgum þakka fyrir höfðinglegar móttökur og áhugaverða kynningu á Póstinum.