Umdæmisþing Rótarý haldið 7-8 október 2022.

sunnudagur, 9. október 2022

Umdæmisþing Rótarý var haldið í Gullhömrum á vegum Rótarýklúbbs Grafarvogs 7-8 október 2022. 

Þau sem mættu til þings á föstudegi úr Borgum voru, Anna Stefánsdóttir, Ágúst Guðmundsson, Emma Eyþórsdóttir, Guðrún Ösp Þórgnýsdóttir, Jón Pétursson og Margrét Halldórsdóttir.

Á laugardag voru þau sömu fyrir utan Margréti Halldórsdóttur. Á borðið okkar kom ánægjulegur gestur Lisa Lutzen sem var skiptinemi hjá okkur fyrir nokkrum árum. Hún var hjá Jónínu Stefánsdóttur og líka hjá Karli Skírnissyni. Lisa vakti mikla lukku með komu sinni og hvað hún talar góða íslensku. Lisa er félagi í Rótarýklúbbnum E-Club of Iceland.

Það vakti strax athygli okkar og stolt að í umdæmisblaðinu var ávarp Jennifer Jones heimsforseta, þar sagði hún það hafa verið ánægjulegt að heimsækja Rótarýklúbbinn Borgir og sjá hvernig Rótarý er kynnt og framkvæmt. Við hvetjum félaga til að sækja blaðið í rafrænu formi á vefsíðu okkar og hér er slóðin https://borgir.rotary1360.is/is/content/news/show/420

Anna Stefánsdóttir var með kraftmikið erindi um Polio Plus. Benti okkur á að við héldum að lömunarveikin væri nánast sigruð en upp hafa komið tilfelli í Nígeríu og New York. Að vísbendingar um lömunarveikina finnist í skolpi í New York og London sagði Anna að væri ógnvekjandi og skelfilegar fréttir. Hvergi mætti slaka á í aðgerðum til að sigra lömunarveikina og hvatti okkur öll til að leggja málinu lið.

Guðni Gíslason vefstjóri Rótarý sagði suma klúbba ekki vera með mikla virkni í nýja vefkerfinu en aðrir komnir vel á veg og birti vefsíðu Borga á skjánum sem dæmi um síðu sem væri vel virk. Við Borgarfólk stækkuðum í sætunum við þetta hrós sem vefstjórar eiga heiðurinn af.

Klúbbum sem tóku á móti gestum af Summit þingi Rótarý í september voru veittar viðurkenningar og tók Jón Pétursson á móti henni fyrir hönd Borga. Þá veitti fráfarandi umdæmisstjóri Ásdís Helga Bjarnadóttir þeim Guðlaugu Birnu Guðjónsdóttur og Önnu Stefánsdóttur Paul Harris orður fyrir langa og mikla vinnu í þágu Rótarý á Íslandi.

kveðja Jón Pétursson 

Viðurkenningar fyrir Summit heimsóknir

Jón forseti og Anna Stefánsdóttir

Á laugardaginn

Lisa Lutzen

Viðurkenningarskjalið