Hin árlega jeppaferð, sem hefur ekki verið farin síðast liðin 3 til 4 ár, var farin 20.
ágúst. Félagar og gestir, alls 24, tóku þátt á einum jepplingi og átta alvöru.
Fyrsti
áfangi var að Flúðum þar sem áð var við rauðlituð náðhús. Þá var haldið í norðurátt
allt að veginum að Kirkjuskarði og loks sveigt til vinstri inn á afleggjarann að Berghyl
þar sem leifar af sjávarskeljum finnast í malarlögum.
Ekið var í norðnorð-austur inn með Berghylsfjalli og Litlu-Laxá þegar hún þá sást.
Leiðin að vestanverðu var vörðuð háum lögum af stuðlabergi þannig að eitthvað
hefur vatnið komið við sögu þegar hraunin runnu. Við áfangastaðinn Hildarsel var áð
og nesti og „old alcohol“ og fleira rennandi sem varaformaðurinn Jónína Stefánsdóttir
hafði dregið í búið voru gerð skil og gengið var að Hildarselsfossi og Kistufossi ásamt
því að smakka bláber beint frá býli. Meira vatn hefði mátt vera í ánni fossanna
vegna.
Prýðis nesti kom úr smiðju Freyju okkar. Hafi hún þökk fyrir. Nokkur afgangur var af
samlokum en einn félagi okkar tók að sér að klára þær heimafyrir hverrar eiginmaður
er Björn.
Formaður ferðanefndar hafði af meðfæddri umhyggjusemi farið um slóðina áður, týnt
og hent út fyrir veg steinum í veginum sem hefðu getað valdið skaða en jarðfast grjót
málaði hann rautt til viðvörunar. Bar á því að ökumenn alvöru jeppa settu upp svip út
af því að búið var að slétta slóðina. En þeirra tími á jepplingum mun koma.